Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þéttbýli

Árneshreppur
Árneshreppur er fámennasti hreppur Íslands með um 50 íbúa. Á sumrin er lífleg ferðaþjónusta rekin víðsvegar á svæðinu og svæðið vinsælt meðal ferðalanga sem eru á leið til Hornstranda.
Bíldudalur
Bíldudalur stendur við hinn ægifagra Arnarfjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Vesturbyggð. Fiskveiðar- og vinnsla hafa verið stór þáttur í atvinnulífi Bíldælinga í gegnum tíðina en þeir voru einnig í forystu í verslunarmálum Íslendinga á sínum tíma. Eftir að einokuninni var aflétt stofnaði Ólafur Thorlacius verslun og varð umsvifamesti kaupmaður landsins. Hann gerði út þilskip, átti flutningaskip og varð fyrstur Íslendinga til að sigla með saltfisk beint á markað á Spáni. Seint á 19. öld hóf Pétur J. Thorsteinsson útgerð og verslun á Bíldudal og fór þá í hönd mesti uppgangstími í sögu bæjarins, enda hefur Pétur oft verið kallaður faðir Bíldudals. Hinn kunni listmálari Muggur var sonur Péturs.Bíldudalur hefur uppá ótal margt að bjóða fyrir þá sem þangað leggja leið sína. Fyrst má nefna safn Jóns Kr. Ólafssonar söngvara sem helgað er sögu Íslenskrar dægurtónlistar. Þá er í bænum nýlegt Skrímslasetur sem helgað er sjóskrímslum við strendur Íslands en Arnarfjörður er einmitt þekktur fyrir mörg kyngimögnuð sjóskrímsli. Frá Bíldudal er líka hægt að komast í sjóstangveiði eða í ferð á slóðir Gísla Súrssonar í Geirþjófsfirði. Þá er vinsælt að aka út með firðinum allt vestur í Selárdal að skoða höggmyndir Samúels Jónssonar en á þeirri leið eru líka fallegar fjörur og ægifagrir dalir þar sem gott er að ganga í blíðunni. Á Bíldudal er níu holu golfvöllur og ekki má gleyma lauginni í Reykjafirði, steinsnar frá þorpinu, þar sem hægt er að láta fara vel um sig á hvaða tíma sólarhringsins sem er.
Bolungarvík
Kaupstaðurinn Bolungarvík stendur við samnefnda vík og er nyrsti þéttbýlisstaður á Vestfjörðum. Það var Þuríður sundafyllir sem nam land í víkinni og eignaði sér ekki bara landið heldur einnig miðin þar út af. Miðin voru auðug og marga fýsti í að veiða þar. Það var Þuríður tilbúin til að leyfa en aðeins ef menn borguðu henni kollótta á fyrir. Þess vegna er stundum sagt að hún hafi verið fyrst Íslendinga til að innheimta veiðileyfagjald. Bolungarvík mun vera elsta verstöð landsins og er hennar m.a. getið í Fóstbræðrasögu. Öldum saman var hún líka ein allra stærsta verstöðin.Föst byggð tók að myndast í Bolungarvík um 1880 og um aldamótin 1900 voru íbúar á svæðinu orðnir yfir 500 talsins. Á fyrstu árum nýrrar aldar átti sér stað mikil uppbygging í þorpinu sem breyttist í gróskumikinn bæ. Þó voru slæmar hafnaraðstæður nokkur þrándur í götu þess að vélbátaútgerð gæti þróast jafn hratt og þá var að gerast víða annars staðar. Árið 1911 var ráðist í hafnarbætur með byggingu brimbrjóts sem á næstu áratugum var lengdur mjög, breikkaður og efldur.Saga Bolungarvíkur hefur alla tíð verið samofin hafinu, fiskveiðum og vinnslu. Margir landsþekktir afla- og útgerðarmenn hafa sett svip sinn á þá sögu. Þar ber ugglaust hæst Einar Guðfinnsson en fyrirtæki hans EG var um margra áratuga skeið eitt allra öflugasta útgerðarfélag landsins. Bolungarvík er sannkölluð paradís ferðalangsins. Bærinn státar af tveimur frábærum söfnum, annar vegar er það hin endurgerða verbúð Ósvör og hins vegar náttúrugripasafn sem Náttúrustofa Vestfjarða hefur umsjón með. Í bænum er líka glænýr grasagarður þar sem hægt er að skoða fjölda vestfirskra jurta. Á björtum degi jafnast ekkert á við að aka upp á Bolafjall og njóta þar stórkostlegs útsýnis yfir í Jökulfirði og Djúp. Sumir fullyrða raunar að þeir geti séð grilla í Grænland við bestu skilyrði. Vegurinn upp á Bolafjall er alla jafna opinn í júlí og ágúst en stundum lengur ef aðstæður eru góðar. Fari fólk upp á Bolafjall er tilvalið að halda áfram yfir í Skálavík þar sem ríkir einstök kyrrð og náttúrfegurð. Hraustmenni eiga það til að baða sig í sjónum þar í víkinni, en einnig er vinsælt að hoppa í ískaldan hylinn í Langá, steinsnar frá fjörunni. Skálavík er líka tilvalinn staður fyrir lengri og styttri gönguferðir og óvíða er betra að njóta miðnætursólarinnar á sumrin.Önnur perla við bæjardyr Bolvikinga er Syðridalur. Þar er góður golfvöllur en einnig stöðuvatn og á þar sem hægt er að fá ódýr veiðileyfi. Innar í dalnum eru flottar gönguleiðir m.a. yfir í Hnífsdal og til Ísafjarðar en einnig er gönguleið upp að gamalli surtarbrandsnámu þar sem brúnkol voru unnin á árunum 1917-18.Gamli Óshlíðarvegurinn, sem um árabil var einn alræmdasti vegur landsins, er nú aflagður sem akvegur eftir að hin nýju göng á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals voru opnuð. Á góðviðrisdögum er hlíðin nú afar vinsæl til gönguferða og hjólreiða enda er umhverfið stórbrotið.Að allri þessari útivist lokinni er svo upplagt að láta líða úr sér í sundlauginni í Bolungarvík. Þetta er hugguleg innilaug en við hana er útisvæði með heitum pottum og vatnsrennibraut.Sjóstangveiði hefur verið vaxandi liður í þjónustu við ferðafólk í Bolungarvík en einnig er boðið upp á bátaleigu með eða án skipstjóra. Þá er haldið uppi reglulegum siglingum frá Bolungarvík inn í Hornstrandafriðlandið á sumrin.
Djúpavík
Djúpavík er á Stöndum á Vestfjörðum, og er hluti af fámennasta sveitarfélaginu á Vestjförðum Árneshrepp sem aðeins hefur 53 íbúa. Yfirgefna síldarverksmiðjan og ryðgaða stálskipið í fjörunni eru lögnu orðin þekkt tákn Djúpuvíkur og Vestfjarða. Vegurinn að Djúpuvík getur verið leiðinlegur, en þá borgar sig bara að hægja aðeins á sér og njóta þess stórkostlega útsýnis sem er á leiðinni því ferðalagið er svo sarnnarlega þess virði. 
Drangsnes
Drangsnes stendur í mynni Steingrímsfjarðar og er eini þéttbýlisstaðurinn í Kaldrananeshreppi. Drangsnes er ungt þorp en þar fór þéttbýli ekki að myndast fyrr en um 1925. Fiskveiðar eru aðal atvinnuvegur íbúanna og eiga grásleppuveiðar þar djúpar rætur. Raunar er hafnaraðstaðan í þorpinu sjálfu ekki ýkja góð en lítið eitt innan við þorpið hefur verið gerð önnur höfn í svokallaðri Kokkálsvík.  Drangsnes dregur nafn sitt af miklum klettadrangi sem stendur í þorpinu. Sannsöglir menn segja að þar sé raunar komið eitt tröllanna sem á sínum tíma reyndu að grafa Vestfirðina lausa frá Íslandi en dagaði uppi og urðu að steinum áður en þeim tókst að ljúka verkinu. Eyjan Grímsey sem er þar skammt undan landi er einnig afrakstur þessa umbótaverkefnis tröllanna. Þar er auðugt fuglalíf með mikilli lundabyggð sem nýtur vinsælda hjá ferðafólki. Farnar eru áætlunarsiglingar út í eyjuna frá Drangsnesi og tekur siglingin einungis um 10 mínútur. Í grennd við Drangsnes eru margar fallegar gönguleiðir. Ganga upp á Bæjarfell hentar t.d. allri fjölskyldunni og af fjallinu er fallegt útsýni út á Steingrímsfjörð, Húnaflóa og til Grímseyjar. Frá Drangsnesi er líka stutt keyrsla að Klúku í Bjarnarfirði þar sem hægt er að skoða Kotbýli kuklarans sem er hluti af Galdrasýningu á Ströndum.  Þar er einnig Gvendarlaug hins góða, 25 m útisundlaug með náttúrulegum heitum potti.Ef ekið er áfram norður tekur við einstök fegurð Árneshrepps. Í vestur frá Drangsnesi er hins vegar Selströndin sem er auðug af fuglalífi. Í Strákatanga í Hveravík er unnið að áhugaverðum fornleifauppgreftri en á tanganum munu baskneskir hvalfangarar hafa starfrækt öfluga hvalveiðistöð á 17. öld.Fyrir fáum árum síðan gerðist það að önnur kaldavatnsleiðsla Drangsnesinga fraus og eyðilagðist.  Því var ekki um annað að ræða en að fá jarðbor á svæðið og bora eftir meira köldu vatni. Svo „ólánlega“ vildi þó til að borinn kom niður á jarðhita og skömmu síðar var fannst öflug heitavatnsæð. Guðmundur Halldórsson sem rak bleikjueldi að Ásmundarnesi í Bjarnarfirði brást skjótt við og kom keyrandi á traktornum með fiskeldisker sem hann gaf börnunum í þorpinu. Kerjunum var komið fyrir í fjörukambinum rétt neðan við Aðalbrautina og þar var opnuð baðaðstaða sem er öllum opin án endurgjalds. Kerin voru síðar endurnýjuð og nú hefur verið byggt blygðunarhús með sturtum og salerni handan götunnar. Eftir sem áður er aðgangur að pottunum ókeypis. Einnig er hægt að taka sundsprett í nýrri og glæsilegri útisundlaug á Drangsnesi. 
Flateyri
Flateyri stendur við Önundarfjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Þorpið byggðist upp í kringum sjósókn en á síðustu áratugum 19. aldar var þar umtalsverð þilskipaútgerð og mikil hákarlaveiði.Árið 1889 reisti Norðmaðurinn Hans Ellefsen hvalveiðistöð á Sólbakka við Flateyri. Stöðin var hin stærsta sinnar tegundar við Norður-Atlantshaf og veitti fjölda manns atvinnu. Hún var starfrækt til ársins 1901 er hún brann til kaldra kola. Myndarlegur múrsteinsreykháfur skammt utan við þorpið er eins konar minnisvarði um þessa stöð. Reykháfurinn var reistur skömmu eftir brunann mikla sem fyrsti liður í endurbyggingu stöðvarinnar. Um frekari byggingaframkvæmdir var þó ekki að ræða því Ellefsen gerði eins og aðrir kollegar hans í hvalveiðunum, flutti stöð sína austur á land því þar var mikil veiði á sama tíma og hval var farið að fækka mjög hér vestra.Flateyri tekur vel á móti gestum. Þegar ekið er inn í bæinn má sjá varnargarðinn, gríðarmikið mannvirki sem reist var byggðinni til verndar eftir snjóflóðið mannskæða í október 1995. Hægt er að ganga upp á garðinn, njóta útsýnis yfir Önundarfjörðinn og átta sig á staðháttum með aðstoð útsýnisskífu. Á Flateyri er boðið upp á rafræna leiðsögn þannig að fólk getur gengið um þorpið og notið leiðsagnar af ferðaspilara. Þar eru líka söfn hvert öðru skemmtilegra. Alþjóðlega brúðusafnið hefur að geyma þjóðbúningadúkkur víða að úr heiminum og í gömlu bókabúðinni, Verzlunin bræðurnir Eyjólfsson, er bæði safn og verslun. Þar er íbúð kaupmannsins varðveitt og gestum til sýnis en einnig er hægt að gera þar kjarakaup í notuðum bókum sem seldar eru eftir vigt, nú eða bara að fá sér brjóstsykur í kramarhúsi uppá gamla mátann.Á góðviðrisdögum er hvíta ströndin handan fjarðarins paradís fyrir alla fjölskylduna en þar fer fram gríðar vinsæl sandkastalakeppni fyrsta laugardaginn í ágúst á hverju ári. Um allan Önundarfjörð er að finna afar fallegar gönguleiðir við allra hæfi og ekki má gleyma því að fuglalífið í firðinum er afar fjölbreytt og skemmtilegt að skoða. Að útivistinni lokinni er svo fátt betra en að slaka á í hinni notalegu sundlaug þeirra Flateyringa.
Hnífsdalur
Hnífsdalur er þorp við utanverðan Skutulsfjörð og tilheyrði áður Eyrarhreppi. Hann sameinaðist Ísafjarðarkaupstað árið 1971 og er nú hluti af sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Árið 1870 var búið á fimm lögbýlum í dalnum en fljótlega upp úr því hófst þorpsmyndun þegar fátækir tómthúsmenn tóku að setjast þar að. Skólahús var reist árið 1882 en árið 1920 voru íbúarnir orðnir ríflega 450 talsins.Hnífsdalur, líkt og önnur vestfirsk þorp, byggðist upp í kringum fiskveiðar og vinnslu. Í dag er þar öflugasta útgerðarfyrirtæki Vestfjarða og eitt hið öflugasta á landinu, Hraðfrystihúsið Gunnvör. Í Hnífsdal er annar munni hinna nýju jarðganga sem komu í stað Óshlíðarvegarins á leiðinni til Bolungarvíkur. Óshlíðin er nú aflögð sem bílvegur en á góðviðrisdögum er afar vinsælt að ganga þar eða hjóla, enda er náttúrufegurðin einstök. Frá Skarfaskeri, skammt frá gangamunnanum, er fallegt útsýni um Djúp, yfir á Snæfjallaströnd og víðar. Þar hefur verið sett upp örnefnamynd fyrir þá sem vilja glöggva sig á staðháttum. Sjálfur dalurinn er ákaflega fallegur til gönguferða hvort sem fólk vill hafa þær stuttar og þægilegar eða reyna meira á sig og fara hærra upp í fjöllin. Afar vinsælt er að ganga upp úr Hnífsdal og fara um Þjófaskarð yfir í Skutulsfjörð eða um Heiðarskarð til Bolungarvíkur.
Hólmavík
Hólmavík er stærsti þéttbýlisstaðurinn á Ströndum. Þorpið stendur við Steingrímsfjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Strandabyggð. Líkt og algengt er með íslensk þorp og bæi tók þéttbýli að myndast þar seint á 19. öld.  Á Hólmavík hefur verið stunduð verslun frá árinu 1895 en elsta byggingin sem þar stendur er verslunarhús sem kaupmaðurinn Richard Peter Riis reisti árið 1897. Þar er nú rekið hið rómaða veitingahús Café Riis.Aðal atvinnuvegur Hólmvíkinga hefur í gegnum tíðina verið sjávarútvegur en landbúnaður hefur einnig verið blómlegur allt í kringum byggðarlagið og á undanförnum árum hefur ferðaþjónusta farið vaxandi.Gestir á Hólmavík ættu ekki að láta hjá líða að skoða Galdrasafnið. Strandir eru órjúfanlega tengdar galdrafári 17. aldar og eru þeirri sögu gerð frábær skil á Galdrasafninu sem og í Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði í um 20 mínútna akstursfæri frá Hólmavík. Þar er einnig að finna 25 m útisundlaug, Gvendarlaug hins góða, ásamt náttúrulegum heitum potti.Annað safn, rétt við bæjardyr Hólmvíkinga, er til húsa í gamla félagsheimilinu Sævangi og ber hið virðulega nafn Sauðfjársetur á Ströndum. Þar er að finna margháttaðan fróðleik um sauðkindina og sauðfjárbúskap fyrr og nú. Safnið stendur einnig fyrir ýmis konar viðburðum og uppákomum hvert sumar en þar er sennilega Íslandsmeistaramótið í hrútaþukli þekktast. Á Orrustutanga, rétt við safnið, er æðarvarp sem gaman er að skoða.Fyrir þá sem eru með mótorhjólið í skottinu þá er mótorcross braut rétt utan við Hólmavík og í Skeljavík er golfvöllur. Handan fjarðarins, á Selströnd, er gaman að skoða fuglalífið sem er afar fjölbreytt. Mjög skemmtileg gönguleið er í Kálfanesborgum rétt ofan við byggðina og raunar má finna urmul góðra gönguleiða allt í kringum Hólmavík. Svæðið er líka ríkt af allskyns þjóðsögum og sögnum og óneitanlega öðlast bæði gönguferðirnar og bíltúrarnir meira gildi ef fólk hefur tök á að kynna sér einhverjar þessara sagna áður en lagt er í hann.  Þegar klettadrangar breytast í tröllskessur, stórgrýti verður að álfaborgum og þúfnabörð verða að álagablettum er hvunndagslegur göngutúr fljótur að breytast í sannkallaða ævintýraför.Á Hólmavík er virkilega góð útisundlaug með heitum pottum þar sem gott er að skola af sér ferðarykið og láta harðsperrurnar líða úr gönguþreyttum vöðvum.  Frétta- og upplýsingavefurinn strandir.is sér um upplýsingamiðlun fyrir svæðið í samstarfi við sveitarfélagið Strandabyggð. 
Ísafjörður
Nafnið Ísafjörður átti forðum við um allt Ísafjarðardjúpið en festist síðan við eyrina í Skutulsfirði sem var helsti verslunarstaðurinn á þessu svæði. Innst í Ísafjarðardjúpi er hins vegar fjörður sem ber nafnið Ísafjörður og veldur þetta gjarnan nokkrum heilabrotum hjá erlendu ferðafólki. Eyri í Skutulsfirði – Ísafjörður – er forn verslunarstaður, höfuðstaður Vestfjarða og tilheyrir nú hinu sameinaða sveitarfélagi Ísafjarðarbæ. Þar hefur verið stunduð verslun öldum saman en strax á 16. öld komu kaupmenn frá Hamborg sér upp aðstöðu á eyrinni. Með tilkomu dönsku einokunarverslunarinnar var eyrin svo fest enn frekar í sessi sem miðstöð fiskveiða og verslunar. Eftir að einokuninni var aflétt störfuðu mörg gróskumikil útgerðar- og verslunarfélög á Ísafirði. Þeirra þekktast er án efa Ásgeirsverslunsem var lang öflugasta einkafyrirtæki landsins á sínum tíma. Fyrirtækið var með umsvifamikla útgerð, keypti fyrstu gufuskip sem Íslendingar eignuðust, hélt uppi farþega- og vörusiglingum um Ísafjarðardjúp og sigldi með afurðir sínar beint frá Ísafirði til markaðslandanna við Miðjarðarhaf.  Ásgeirsverslun stóð fyrir ýmsum öðrum nýjungum svo sem fyrsta talsíma á milli húsa á Íslandi.Saltfiskur varð verðmætasta útflutningsafurð Íslendinga á 19. öld og vinnsla hans varð undistaða atvinnulífs á Ísafirði. Um aldamótin 1900 var Ísafjörður næst stærsti bær landsins og í fararbroddi í mörgu er sneri að útgerð og sjávarútvegi. Til Ísafjarðar má m.a. rekja upphaf vélvæðingar fiskiskipaflotans sem og upphaf rækjuveiða við Ísland.Samhliða atvinnulífinu blómstraði einnig menningin í bænum. Tónlistin á sér þar ríka hefð og var Tónlistarskóli Ísafjarðar fyrsti tónlistarskóli landsins. Bókasafn var stofnað þegar árið 1889 og um tíma áttu Ísfirðingar eitt allra glæsilegasta leikhús landsins, Templarahúsið, sem brann árið 1930.Ísafjörður hefur ótal margt að bjóða ferðafólki. Sjóminjasafnið í Neðstakaupstað, í húsum einokunarverslunarinnar frá 18. öld, þykir eitt af skemmtilegustu söfnum landsins en þar er einnig til húsa Harmonikusafn Ásgeirs Sigurðssonar. Í Gamla sjúkrahúsinu á Eyrartúni er bókasafn, skjalasafn, ljósmyndasafn og metnaðarfullt listasafn. Ganga um gamla bæinn er líka á við bestu heimsókn á safn ekki síst ef hið ágæta húsakort er með í för. Náttúran í kringum Ísafjörð er einstök og býður upp á fjölmargar frábærar gönguleiðir við allra hæfi og ekki er verra að líða um kyrran hafflötinn á kajak. Í Tungudal er golfvöllur og fyrir þá sem leggja leið sína til Ísafjarðar að vetri er rétt að benda á skíðasvæðin í Tungudal og á Seljalandsdal. Sundhöllin á Ísafirði er gömul en vinaleg innilaug með heitum potti og gufubaði. Frá Ísafirði eru reglulegar áætlunarferðir báta yfir í Hornstrandafriðlandið, til eyjarinnar Vigur og víðar. Snæfjallaströnd tilheyrir einnig Ísafjarðarbæ en þar er rekin eina ferðaþjónustan við norðanvert Djúp, í Dalbæ og þar er Snjáfjallasetur með sögusýningar.Á hverju ári fara fram metnaðarfullar menningarhátíðir á Ísafirði. Þar ber hæst klassísku tónlistarhátíðina Við Djúpið, leiklistarhátíðina Act Alone og sjálfa rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður. Unnendur íþrótta og útivistar fá líka sitt á Skíðavikunni, Fossavatnsgöngunni og Mýrarboltanum ásamt Hlaupahátíð á Vestfjörðum sem fram fer á Ísafirði, Bolungarvík og í Dýrafirði.
Norðurfjörður
Norðurfjörður er í Árneshreppi fámennasta sveitarfélag landsins með aðeins 53 íbúa. Hann teygir sig þó yfir vítt svæði og þekur um 780 km2. Þéttleiki byggðar er því aðeins 0, 07 einstaklingar á km2.   Engar almenningssamgöngur eru á svæðinu, fyrir utan eitt til tvö flug í viku frá Reykjavík til Gjögurs, lítillar byggðar sem aðeins er byggð yfir sumartímann. Flestir gestir ferðast með bíl.  Vinsamlegast athugið þó að ef þú ert að ferðast á veturna er nauðsynlegt að athuga veður og ástand vega áður en þú heimsækir svæðið.
Patreksfjörður
Patreksfjörður stendur við samnefndan fjörð og er stærsti þéttbýlisstaðurinn á sunnanverðum Vestfjörðum. Þorpið teygir sig á milli Vatneyrar og Geirseyrar og gekk áður fyrr jafnan undir Vatneyrar nafninu. Patreksfjörður er nú hluti af hinu sameinaða sveitarfélagi Vesturbyggð sem teygir sig yfir mestalla Vestur-Barðastrandarsýslu.Verslun hefur verið stunduð á þessu svæði frá fornu fari og þangað sóttu kaupmenn frá ýmsum löndum. Á einokunartímanum var Vatneyri viðurkenndur verslunarstaður og fiskihöfn. Veturinn 1615 bjuggu baskneskir skipbrotsmenn um sig í verslunarhúsunum, en þeir voru þá á flótta undan Ara sýslumanni í Ögri og flokki hans,) sem eltu uppi og aflífuðu marga skipbrotsmannanna í hinum alræmdu Spánverjavígum. Þéttbýli tók að myndast á svæðinu á seinni hluta 19. aldar og árið 1900 voru íbúarnir orðnir um 350 talsins. Innan Vatneyrar var gott hafskipalagi og þangað sóttu erlend skip mjög. Heimildir eru um að 100 seglskip hafi verið á legunni í einu og síðar varð Patreksfjörður fjölsótt höfn fyrir erlenda togara sem komu til viðgerða eða til að leita skjóls undan veðrum. Patreksfirðingar voru miklir frumkvöðlar í útgerð og fiskveiðum. Þeir hófu þilskipaútgerð fyrstir Vestfirðinga og voru jafnframt í forystu þegar útgerð togara hófst. Enn í dag er sjávarútvegur mikilvægasta atvinnugreinin á Patreksfirði en þar er einnig að finna fjölbreytta þjónustu. Menningin á sér líka djúpar rætur á svæðinu og eru skáldið Jón úr Vör og listmálarinn Kristján Davíðsson líklega kunnustu listamenn Patreksfjarðar. Þá hefur heimildamyndahátíðin Skjaldborg fest sig í sessi á undanförnum árum sem ein eftirtektarverðasta kvikmyndahátíð landsins.Ferðafólk getur slakað á í nýrri og stórglæsilegri sundlaug Patreksfirðinga eða tekið hring á golfvellinum. Margir af fegurstu og vinsælustu áningarstöðum ferðamanna á Vestfjörðum eru í þægilegu ökufæri frá Patreksfirði svo sem Vatnsfjörður, Rauðasandur og Látrabjarg. Þess má geta að National Geograpic valdi nýlega Látrabjarg í hóp þeirra 10 staða sem bjóða upp á fegurstu sjávarsýn (e. ocean view) í heiminum.
Reykhólar
Reykhólar eru ríkir, bæði af sögu og náttúrufegurð. Svæðið er paradís fyrir áhugafólk um fugla, en grynningar, leirur, votlendi, móar og klettar skapa skilyrði fyrir ótrúlega fjölbreytt fuglalíf. Óvíða á Íslandi er hægt að sjá jafn margar fuglategundir á einum stað eins og á Reykhólum. Reykhólar eru líka sá þéttbýlisstaður á Íslandi þar sem mestir möguleikar eru á því að sjá haförn á sveimi.Reykhólar eru sögufrægur staður, fornt höfuðból og einhver allra besta bújörð landsins á öldum áður. Við sögu staðarins koma m.a. Guðmundur ríki, Grettir Ásmundsson, Þorgeir Hávarsson, Þormóður Kolbrúnarskáld og Tumi Sighvatsson. Í þorpinu er minnisvarði um skáldið Jón Thoroddsen, en hann fæddist á Reykhólum árið 1818.Á Reykhólum eru tvær frábærar heilsulindir, annars vegar sundlaugin góða Grettislaug, og hins vegar hin glænýju þaraböð Sjávarsmiðjunnar. Þá er í þorpinu Báta- og hlunnindasýning sem kemur gestum í beint samband við lífsbaráttu fyrri alda og útskýrir hvernig hlunnindi í hafinu, á ströndinni og í eyjunum voru nýtt. Frá Reykhólum  er líka hægt að komast í siglingar um hinar ægifögru eyjar Breiðafjarðar og ekki má heldur gleyma því að í nágrenninu er urmull fallegra gönguleiða. Barmahlíðin, eða Hlíðin mín fríða, sem Jón Thoroddsen orti svo fallega um, Vaðalfjöllin, gígtappinn tignarlegi sem teygir sig upp í heiðan himininn og Borgarlandið með sínu magnaða útsýni og huldukaupstaðnum Bjartmarssteini eru bara örfá dæmi um þá töfraveröld sem umlykur Reykhóla.
Suðureyri
Suðureyri stendur við sunnanverðan Súgandafjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Suðureyri varð löggiltur verslunarstaður árið 1899 en fljótlega upp úr því tók að myndast vísir að byggð á eyrinni. Sjávarútvegur hefur alla tíð verið mikilvægasta atvinnugreinin á svæðinu og því ekki að ósekju að sjóklæðagerðin 66°N á upphaf sitt að rekja til Suðureyrar. Ferðaþjónusta hefur einnig vaxið mjög á undanförnum árum og er Suðureyri orðin þekkt víða um heim sem hið dæmigerða íslenska sjávarþorp enda hefur umfjöllun um bæinn ratað inn í flestar helstu ferðahandbækur sem gefnar eru út.  Í þjónustu við ferðafólk er lögð mikil áhersla á hina sögulegu tengingu við hafið og fiskveiðar, í sátt við náttúruna og umhverfið, en tæpast er hægt að finna vistvænna þorp en Suðureyri. Veiðar fara fram með vistvænum veiðarfærum, línu og handfærum, aflinn er fullunninn í þorpinu og þar er einnig fyrirtæki sem sérhæfir sig í að skapa verðmæti úr aukaafurðum fisksins þannig að lítið sem ekkert fer til spillis. Á Suðureyri er jarðvarmi, nokkuð sem önnur byggðarlög á norðanverðum Vestfjörðum búa ekki við og í botni fjarðarins er vatnsaflsvirkjun sem framleiðir rafmagn. Súgfirðingar leggja því höfuð áherslu á notkun endurnýjanlegrar orku og að halda mengun og úrgangi í algeru lágmarki. Það er óhætt að segja að Sjávarþorpið Suðureyri standi fyllilega undir nafni. Staðurinn  hefur verið leiðandi í þeirri miklu þróun sem orðið hefur í sjóstangveiði fyrir ferðafólk á undanförnum árum. Árlega kemur þangað mikill fjöldi gesta sem leigir sér bát og búnað til veiða. Mest eru það erlendir veiðimenn sem stoppa í viku í senn en séu bátar á lausu er ekkert því til fyrirstöðu að fólk geti skroppið á sjó í einn dag eða dagspart og sótt sér spriklandi ferska soðningu. Gestum á Suðureyri stendur einnig til boða að skoða fiskvinnsluna á staðnum, kíkja í beitingarskúra og jafnvel að slást í för með sjómönnum á miðin. Enginn ætti heldur að láta hjá líða að stoppa við lónið í útjaðri þorpsins, skoða þorskana sem þar búa og gefa þeim að éta, en þeir eru afar gæfir og eiga það til að þiggja matinn beint úr lófa fólks. Hægt er að fá æti fyrir þorskana í verslun staðarins.Suðureyri stendur á elsta hluta Íslands en bergið á svæðinu er um 15 milljón ára gamalt. Landslagið er fallegt og göngufólk getur valið um fjölda fallegra leiða. Þar má nefna gamlar samgönguleiðir svo sem leiðina um Klofningsheiði yfir til Flateyrar og leiðina upp Selárdal, handan fjarðarins, yfir Grábrókarheiði og til Bolungarvíkur. Úr botni fjarðarins er líka gaman að ganga upp gamla Botnsheiðarveginn, sem nú hefur verið aflagður sem bílvegur. Styttri og léttari leiðir eru líka í boði. Það er t.d. fallegt, auðvelt og skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna að fara fyrir Brimnes. Þangað er lítið mál að ganga frá Suðureyri en einnig stendur fólki til boða að leigja sér reiðhjól eða rafknúna vespu til að fara um á og rannsaka svæðið. Ekki má heldur gleyma því að á Suðureyri er besta sundlaugin á norðanverðum Vestfjörðum, útilaug með heitum pottum og gufubaði. Laugin stendur á afar fallegum stað undir fjallshlíðinni og nýtur mikillar hylli ekki síst á meðal fjölskyldufólks.
Súðavík
Súðavík stendur við hinn skjólsæla Álftafjörð. Þar var mikilvægur verslunarstaður fyrr á öldum og eru m.a. til heimildir frá 16. öld um verslun við Lýbíkumenn (frá Lübeck). Árið 1882 reisti Norðmaðurinn Svend Foyn hvalveiðistöð á Langeyri og tók þá að myndast þéttbýli í Súðavík. Stöðin var starfrækt til ársins 1904 en sjávarútvegur var áfram undistaða atvinnulífsins í þorpinu, og er enn.Súðavík er í dag tvískipt þorp. Eftir snjóflóðin hræðilegu árið 1995 var ákveðið að endurreisa byggðina á öruggu svæði lítið eitt innar í firðinum en gamla þorpið stendur áfram og er vinsælt sem sumarbyggð. Ferðaþjónusta hefur farið vaxandi í Súðavík á undanförnum árum ekki síst sökum þess að staðurinn nýtur hylli á meðal erlendra sjóstangveiðimanna. Þar var líka nýlega opnað Melrakkasetur Íslands, safn og rannsóknarsetur sem helgað er íslensku tófunni og er það þegar orðið að afar vinsælum viðkomustað ferðalanga. Enginn ætti heldur að láta hjá líða að fara í Raggagarð sem er frábær fjölskyldugarður með leiktækjum og grillaðstöðu. Súðavíkurhreppur er afar víðfeðmt sveitarfélag, teygir sig frá Súðavíkurhlíð og inn allt Djúpið að botni Ísafjarðar. Á þessu svæði er margt sem gleður ferðafólk. Þar eru t.d. fallegar en krefjandi gönguleiðir upp á Sauratinda og Kofra fyrir ofan þorpið og í botni Álftafjarðar er létt leið við allra hæfi að perlunni Valagili. Einnig er vinsælt að ganga í Folafót en raunar má finna fallegar leiðir í öllum fjörðum Súðavíkurhrepps. Í Litlabæ í Skötufirði hefur verið opnað safn en Þjóðminjasafn Íslands lét gera gamla bæjarhúsið upp fyrir fáum árum. Þar er nú skemmtilegur áningarstaður fyrir alla fjölskylduna og ekki spillir fyrir að selir sjást gjarnan liggja í makindum þar skammt frá.  Eyjan Vigur er tvímælalaust vinsælasti ferðamannastaðurinn í Súðavíkurhreppi en meðal annarra staða má nefna Ögur, Reykjanes og Heydal.Af þekktum Súðvíkingum má líklega fyrstan nefna Jón Indíafara sem þar bjó snemma á 17. öldinni og var víðförlastur Íslendinga á sinni tíð. Þá má nefna Jón Hjaltason rithöfund og svo vitaskuld sjálfan „sóma Súðavíkur“, tónlistarmanninn Mugison.
Tálknafjörður
Tálknafjörður er sjálfstætt sveitarfélag og er eins konar eyja sem umlukin er sveitarfélaginu Vesturbyggð. Eins og títt er um vestfirsku þorpin byggðist Tálknafjörður fyrst og fremst upp í kringum fiskveiðar. Fyrrum var mikið róið frá verstöðvum beggja vegna fjarðarins og í lok 19. aldar reistu Norðmenn hvalveiðistöð á Suðureyri við sunnanverðan fjörðinn. Fjölgaði þá íbúum á svæðinu talsvert en eiginleg þéttbýlismyndun hófst þó í raun ekki fyrr en um miðja 20. öldina. Fiskveiðar eru enn afar mikilvægar í atvinnulífi Tálknfirðinga. Þeir hafa einnig sótt fram í nýjum greinum fiskiðnaðarins, reka til dæmis umfangsmikið fiskeldi auk þess sem bærinn er vinsæll áfangastaður erlendra sjóstangveiðimanna. Ferðaþjónustan hefur farið vaxandi á Tálknafirði enda hefur bærinn og nágrenni hans upp á margt að bjóða. Sundlaugin, sem staðsett er alveg við hið frábæra tjaldsvæði Tálknfirðinga, þykir ein sú besta á Vestfjörðum og ekki er síðra að heimsækja Pollinn, heitu pottana í landi Litla-Laugardals, skammt utan við bæinn. Mikið er um fallegar gönguleiðir við Tálknafjörð. Við Arnarstapa er til að mynda einstök kyrrð og náttúrufegurð og ekki er síðra að ganga að Suðureyri þar sem hvalveiðistöðin stóð forðum. Þar er laut sem sögð er vera álfabyggð. Ef göngufólk leggst þar til hvílu og lætur sér renna í brjóst mun það dreyma fyrir framtíð sinni.
Þingeyri
VISIT THINGEYRI - EVENT CALENDAR HERE    Heimsækjum Þingeyri  Í sumar verður öflug dagskrá, þjónusta og afþreying í boði á Þingeyri og í Dýrafirði alla daga vikunnar. Hægt er að nálgast yfirlit yfir viðburðina hér.  Þingeyri við Dýrafjörð er elsti verslunarstaður Vestfjarða og einn sá elsti á landinu. Bærinn tilheyrir nú hinu sameinaða sveitarfélagi Ísafjarðarbæ.Líklegt er að Þingeyri hafi verið þingstaður Dýrfirðingagoðorðs til forna. Þar var mikilvæg höfn allt frá þjóðveldistíma og viðkomustaður erlendra kaupmanna. Upp úr miðri 19. öldinni tók að myndast vísir að þéttbýli á Þingeyri. Um það sama leyti voru franskar fiskiskútur tíðir gestir á Dýrafirði og óskuðu Frakkar eftir leyfi til að stofna nýlendu í Haukadal skammt utan Þingeyrar. Því var hafnað en franskir duggarar, amerískir lúðuveiðimenn, norskir hvalfangarar og fleiri ljáðu Dýrfirðinum áfram alþjóðlegan blæ.Á Þingeyri er æði margt sem gestir geta tekið sér fyrir hendur. Gamla smiðjan, Vélsmiðja G. J. Sigurðssonar & CO, var stofnuð árið 1913 og gengur enn í óbreyttri mynd. Þar hafa ótal skip frá flestum heimshornum fengið varahluti og viðgerðir í gegnum tíðina en smiðjan er í dag rekin sem lifandi safn og er nauðsynlegur viðkomustaður gesta í plássinu. Í Meðaldal skammt fyrir utan bæinn er golfvöllur sem ratað hefur í golfbækur og tímarit víða um heim ekki síst fyrir braut nr. 7 sem þykir einhver sú allra fegursta á Íslandi.Á Þingeyri er lítil en ákaflega þægileg og fjölskylduvæn sundlaug en utan við hana er tjaldsvæði, strandblakvöllur og víkingasvæði þar sem finna má grill, bekki, borð og stórt svið. Þingeyri stendur rétt við einn magnaðasta fjallgarð Vestfjarða sem oft er kallaður „Vestfirsku Alparnir“. Þar gnæfir Kaldbakur uppúr, 998 m hár, hæsta fjall Vestfjarða. Hann er vinsæll og tiltölulega þægilegur uppgöngu fyrir vana göngugarpa. Af mörgum stórbrotnum stöðum í þægilegu akstursfæri frá Þingeyri má nefna fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta á Hrafnseyri, fossinn Dynjanda, söguslóðir Gísla Súrssonar í Haukadal, elsta skrúðgarð landsins, Skrúð, og ekki síst Kjaransbrautina svokölluðu en það er magnaður jeppaslóði sem Elís Kjaran ruddi upp á sitt einsdæmi á skaganum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.
Flatey
Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins en mynni hans er 70 km á breidd. Þar sem fjörðurinn er grynnri og mjórri, eru nær óteljandi eyjar, en talið er að þær séu um 2700-2800 og auk þeirra eru fjöldamörg sker og boðar. Ýmsar þessara eyja voru byggðar fyrrum en langflestar þeirra eru nú í eyði. Flatey er eina undantekningin en hún er stærst Breiðafjarðareyja og þar eru 6 manns með skráð lögheimili. Flatey er einnig eina Breiðafjarðareyjan sem er í byggð allt árið. Margar eyjanna voru í byggð fyrir ekki svo löngu síðan líkt og Hvallátur, Svefneyjar og Akureyjar en það er af sem áður var. Eyjarnar eiga það allar sameiginlegt að hafa myndast undan afli skriðjökla á ísaldartímanum. Þær eru flatlendar að mestu og jarðlögin svipuð og á Vestfjörðum. Í mörgum eyjanna er mikil gróska og margar tegundir plantna. Stór hluti af hérlendum stofnum fugla eins og lunda, æðarfugls og teistu er á firðinum. Sagt er að fólk sem bjó við Breiðafjörð og á eyjunum hafi sjaldan eða aldrei liðið matarskort. Eyjarnar iða af fuglalífi og flesta fuglana má nytja. Auk þess var gnægð fisks og sjávarspendýra í flóanum, fjörubeit og fleira. Lífríki eða vistkerfi svæðisins er óvenju fjölþætt og stóð af sér harðæri sem komu verr niður annars staðar og ollu þá jafnvel fólksflutningum til Breiðafjarðarsvæðisins.