Drangsnes
- Drangsnes
Drangsnes stendur í mynni Steingrímsfjarðar og er eini þéttbýlisstaðurinn í Kaldrananeshreppi. Drangsnes er ungt þorp en þar fór þéttbýli ekki að myndast fyrr en um 1925. Fiskveiðar eru aðal atvinnuvegur íbúanna og eiga grásleppuveiðar þar djúpar rætur. Raunar er hafnaraðstaðan í þorpinu sjálfu ekki ýkja góð en lítið eitt innan við þorpið hefur verið gerð önnur höfn í svokallaðri Kokkálsvík.
Drangsnes dregur nafn sitt af miklum klettadrangi sem stendur í þorpinu. Sannsöglir menn segja að þar sé raunar komið eitt tröllanna sem á sínum tíma reyndu að grafa Vestfirðina lausa frá Íslandi en dagaði uppi og urðu að steinum áður en þeim tókst að ljúka verkinu. Eyjan Grímsey sem er þar skammt undan landi er einnig afrakstur þessa umbótaverkefnis tröllanna. Þar er auðugt fuglalíf með mikilli lundabyggð sem nýtur vinsælda hjá ferðafólki. Farnar eru áætlunarsiglingar út í eyjuna frá Drangsnesi og tekur siglingin einungis um 10 mínútur.
Í grennd við Drangsnes eru margar fallegar gönguleiðir. Ganga upp á Bæjarfell hentar t.d. allri fjölskyldunni og af fjallinu er fallegt útsýni út á Steingrímsfjörð, Húnaflóa og til Grímseyjar. Frá Drangsnesi er líka stutt keyrsla að Klúku í Bjarnarfirði þar sem hægt er að skoða Kotbýli kuklarans sem er hluti af Galdrasýningu á Ströndum. Þar er einnig Gvendarlaug hins góða, 25 m útisundlaug með náttúrulegum heitum potti.
Ef ekið er áfram norður tekur við einstök fegurð Árneshrepps. Í vestur frá Drangsnesi er hins vegar Selströndin sem er auðug af fuglalífi. Í Strákatanga í Hveravík er unnið að áhugaverðum fornleifauppgreftri en á tanganum munu baskneskir hvalfangarar hafa starfrækt öfluga hvalveiðistöð á 17. öld.
Fyrir fáum árum síðan gerðist það að önnur kaldavatnsleiðsla Drangsnesinga fraus og eyðilagðist. Því var ekki um annað að ræða en að fá jarðbor á svæðið og bora eftir meira köldu vatni. Svo „ólánlega“ vildi þó til að borinn kom niður á jarðhita og skömmu síðar var fannst öflug heitavatnsæð. Guðmundur Halldórsson sem rak bleikjueldi að Ásmundarnesi í Bjarnarfirði brást skjótt við og kom keyrandi á traktornum með fiskeldisker sem hann gaf börnunum í þorpinu. Kerjunum var komið fyrir í fjörukambinum rétt neðan við Aðalbrautina og þar var opnuð baðaðstaða sem er öllum opin án endurgjalds. Kerin voru síðar endurnýjuð og nú hefur verið byggt blygðunarhús með sturtum og salerni handan götunnar. Eftir sem áður er aðgangur að pottunum ókeypis. Einnig er hægt að taka sundsprett í nýrri og glæsilegri útisundlaug á Drangsnesi.