Þá er hún loksins komin út bókin sem margir hafa beðið eftir. Leiklist á Ísafirði eftir Elfar Loga, blekbónda. Af því tilefni er boðið til útgáfuhófs í bókabúð Pennans Eymundsson á Ísafirði. Blekbóndinn segir frá og les uppúr bókinni. Vitanlega verður Leiklist á Ísafirði á sérstöku Ísafjarðarverði af þessu tilefni.
Þau ykkar sem hafa keypt bókina í forsölu þá væri upplagt að koma við og sækja eintakið ykkar.
Öll velkomin.
Hér er hún komin fjórða vestfirska leiksögubók Kómedíuleikhússins og nú er komið að leiksögu höfuðstaðarins, Ísafjarðar. Skyggnst verður bakvið tjöldin í leikhúsi bæjarins við flæðarmálið og það í bókstaflegri merkingu. Hér verður leitast við að fanga sögu leiklistarinnar á Ísafirði allt frá fyrstu leikuppfærslu til þeirra nýjustu. Víst er erindi ritara einsog leikarans sem á hverju kveldi finnst líkt og hann sé að kasta sér fyrir björg um leið og ljósin koma upp. Nú tekur leikhúsið völdin og eins gott að gjöra sitt besta. Bókin er prýdd fjölda mynda úr leiksögu Ísafjarðar.
Áður hafa komið út í vestfirsku leiksögu útgáfu Kómedíuleikhússins Leiklist á Bíldudal, 2015, Leiklist og list á Þingeyri, 2020, og Leiklist í Bolungarvík, 2023. Eldri bækurnar verða einnig til sölu.
Elfar Logi Hannesson er velvirkur Vestfirðingur. Fæddur í vestfirska þorpinu þar sem skemmtun er í fyrsta sæti og vinnan í næsta sæti. Hann hefur starfað sem leikhúslistamaður er stofnandi Kómedíuleikhússins og Act alone og stjórnandi beggja apparata ásamt sínum betri helmingi Marsibil G. Kristjánsdóttur. Síðustu ár hefur Elfar Logi einnig unnið fyrir sér sem blekbóndi og ritað fjölda leikrita og bóka.