Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Línus Orri, Leó Exibard, Karólína Rós og Sölvi - tónar og ljóð

23. júní kl. 15:00-17:00

Fjöltónlistarmaðurinn Línus Orri hefur verið mjög virkur í þjóðlagatónlistinni á síðustu árum. Hann er í stjórn Kvæðamannafélagsins Iðunnar, kórstjóri Kvæðakórsins og leikur á fjölda hljóðfæra sem sum er hans eigin smíð. Línus Orri leikur nokkur lög og flytur kvæði í Steinshúsi með nyckelhörpuleikaranum Leó Exibard.
Karólína Rós Ólafsdóttir (f. 1997) er skáld frá Akureyri. Hún útskrifaðist með BA gráðu í ritlist frá Goldsmiths University í London og stundar meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands. Í ljóðum sínum skoðar hún gjarnan þemu í kringum vistrýni, femínisma, þjóðsögur og stafrænan veruleika. Karólína gaf út ljóðakverið Hversdagar með Pastel ritröð 2018 og ljóðabókina All in Animal Time með Spam Press í Skotlandi 2023. Auk þessa hefur hún tekið þátt í og skrifað texta fyrir gjörninga og myndlistasýningar í Bretlandi, Þýskalandi og á Íslandi. Karólína Rós flytur nokkur ljóð í Steinshúsi.
Sölvi Halldórsson (f. 1999) er ljóðskáld frá Akureyri. Áður hefur Sölvi gefið út ljóðabálkinn Piltar (2018) hjá Pastel ritröð og samsteypuverkið Kartöflukenningin endurskoðuð (2021) í samstarfi við rithöfundahópinn DISKO!F. Sölvi hlaut á dögunum Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir ljóðasafnið Þegar við vorum hellisbúar og er væntanlegt til útgáfu í haust. Ljóð Sölva fjalla um fjölskyldu, ást, heimilishætti og aðra hönnunargripi.
Saman eru þau helmingur ljóðakollektívsins MÚKK. Uppbyggingarsjóður Vestfjarða styrkir viðburðinn.

GPS punktar

N65° 55' 23.623" W22° 21' 13.511"

Staðsetning

Steinshús við Nauteyri

Sími