Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vestfjarðaleiðin

Vestfjarðaleiðin

Ferðaþjónustan á Vestfjörðum hefur talað fyrir því að Vestfjarðahringurinn sem verður til við gerð Dýrafjarðarganga og veg yfir Dynjandisheiði verði skilgreindur sem ferðamannaleið. Ferðamannaleiðin hefur fengið nafnið Vestfjarðaleiðin og er með henni verið að skapa nýtt aðdráttarafl fyrir Vestfirði og Ísland sem byggir á upplifun og afþreyingu.

Verkefnið tekur til þróunar, undirbúnings og opnunar Vestfjarðaleiðarinnar og stuðla með því að lengingu ferðamannatímabilsins og auka þannig arðbærni ferðaþjónustunnar á svæðinu. Vestfjarðaleiðin snýst ekki um að keyra Vestfjarðahring á sem skemmstum tíma, heldur að stoppa, njóta og upplifa. Þá er horft til þess að tengja vestfirskan mat og matarupplifun inn í ferðalagið.

Vestfjarðastofa hefur umsjón með verkefninu og hefur ráðið til sín breska ráðgjafafyrirtækið Blue Sail sem hefur komið að þróun ýmissra ferðamannaleiða meðal annars Arctic Coast Way á Norðurlandi og Wild Atlantic Way á Írlandi.

Í byrjun september 2019 voru haldnar þrjár vinnustofur með hagsmunaaðilum og voru þær haldnar á Ísafirði, Patrekstfirði og í Dölunum. Voru fundargestir þar látnir skilgreina helsta aðdráttarafl og upplifanir sem fylgja leiðinni. Mikið var rætt um helstu náttúruperlur Vestfjarða og þá afþreyingarmöguleika sem eru fyrir hendi.

Í október 2020 opnuðu Dýrafjarðargöng og samhliða því varð Vestfjarðaleiðin að raunveruleika. Enn er unnið að þróun og kynningu á ferðamannaleiðinni.

Verkefnið hlaut styrk frá Ferðamálastofu árið 2018, til þriggja ára, en jafnframt fékk verkefnið styrk sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar.