Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vestfirsk ferðaþjónustufyrirtæki á Mannamótum

Síðastliðinn fimmtudag fóru Mannamót markaðsstofa landshlutanna fram í Kórnum í Kópavogi. Mannamót eru einn stærsti viðburðurinn í íslenskri ferðaþjónustu og voru gestir um 800 talsins sem er metfjöldi og fyrirtækin sem sýndu voru um 220 talsins alls staðar af landinu.

Þeirra á meðal voru 17 sýnendur frá öllum Vestfjarðakjálkanum, bæði fyrirtæki og sveitarfélög. Á sýningabásum Vestfjarða var meðal annars boðið upp á vestfirskan bjór og sushi sem naut mikilla vinsælda meðal gesta. Sýnendur voru að vonum ánægðir með daginn og sögðu þetta frábæra leið til að byggja upp tengsl í ferðaþjónustunni.

Elsa María Thompson rekur gistingu og kaffihús á Gemlufalli í Dýrafirði. Hún sagði viðburðinn hafa verið mjög skemmtilegan og áhugaverðan og gagnlegt sé að hitta fólk sem er að gera svipaða hluti. Þau hafi fengið alls konar hugmyndir um hvernig þau geti gert betur og jafnframt kynnst öðru fólki sem er að vinna í ferðaþjónustu á svæðinu í kring.

Galdur Brugghús á Hólmavík er nýjasta brugghús landsins, staðsett á Hólmavík. Finnur Ólafsson hjá Galdri segir að þau hafi fengið frábærar viðtökur á Mannamótum. Ánægjulegt hafi verið að sjá hversu margir sýndu þessu nýja brugghúsi áhuga auk þess sem það sé alltaf gaman að hitta nýtt fólk og bera saman bækur og vonast hann til að geta unnið áfram með þær tengingar sem viðburðurinn veitti. Best af öllu hafi þó verið að uppgötva hvað allir sem smökkuðu voru ánægðir með gæði vörunnar.

Valgerður María Þorsteinsdóttir er menningar- og ferðamálafulltrúi Vesturbyggðar, en Vesturbyggð var með glæsilegan bás á Mannamótum. „Það var ótrúlega góð stemning og gaman að hitta fólk alls staðar af landinu“ segir Valgerður. Hún segir Mannamót vera tilvalin til að eiga samtal við fólk í óformlegum kringumstæðum án þess að þurfa að bóka fundi og það standi sérstaklega upp úr hvað fólk sé hugmyndaríkt. Nefnir hún sérstaklega hve gott það er að kynnast ferðaþjónum á öðrum svæðum Vestfjarða og komast að því hvað er að gerast í ferðaþjónustunni þar. Hún fann fyrir miklum áhuga á sunnanverðum Vestfjörðum og sagði marga gesti vilja sækja þá heim.

Viðburðurinn, sem haldinn er í samstarfi markaðsstofa landshlutanna, hefur skipað sér sess sem einn helsti viðburðurinn í íslenskri ferðaþjónustu enda dregur hann saman ferðaþjóna af öllu landinu og skapar tengsl sem styðja við áframhaldandi uppbyggingu og grósku geirans á landinu öllu.

Hér má sjá myndir frá Mannamótum 2023.