Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Hvað skal sjá og gera

20090616-img_0889.jpg
Hvað skal sjá og gera

Þegar fólk spyr hvað það eigi að sjá og gera á Vestfjörðum er svarið einfalt, skoða Vestfirði! Fjölbreytileikinn er mikill og erfitt er að segja til um hvað sé betra en annað, það fer allt eftir smekk og áhugasviði fólks. Það er lítið um beina vegi á Vestfjörðum, vegirnir þræða sig inn og út úr fjörðum, yfir heiðar, ofan í dali og í gegnum fjöll. Í hverri beygju sér maður eitthvað nýtt, eitthvað óvænt eða einfaldlega eitthvað sem kveikir í manni. 

Dagsferðir

Úrval dagsferða er nánast ótæmandi og þær geta verið hentugur kostur.

Kajakferðir / Róðrarbretti

Það er skemmtileg upplifun að róa um á kajak, Vestfirðir henta sérlega vel til slíkrar iðju með skjólgóðum fjörðum og fjölbreyttu dýralífi meðfram ströndinni. 

Söfn

Á Vestfjörðum má finna margskonar söfn og fræðasetur. Mörg þeirra eru nokkuð hefðbundin og má þar nefna bóka- lista- og minjasöfn, önnur eru óhefðbundnari og eru sem dæmi tileinkuð göldrum, skrímslum og ýmsu öðru forvitnilegu.

Sundlaugar

Sundlaugar er víða að finna á Vestfjörðum, í byggð, við gamla héraðsskóla eða yfirgefnar einar úti í náttúrunni. Þær eru eins mismunandi og þær eru margar, það er því um að gera að heimsækja sem flestar á ferð sinni um Vestfirði. 

Látrabjarg

Ógnarbratt, 14 km langt bjargið er margbreytilegt og þar eru grónir grasblettir og einnig snarbrattir klettar. Rétt er að fara mjög gætilega þar sem bjargbrúnin er snarbrött og getur verið viðkvæm. Látrabjarg er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Vestfjarða og þangað er hægt að keyra.

Rauðasandur

Rauðasandur er 10 kílómetra löng strandlengja sem einkennist af fallega lituðum rauðum sandi. Liturinn getur verið allt frá því að vera gulur, rauður og allt að því svartur, þetta fer allt eftir birtunni. Sandurinn fær þennan rauða lit líklegast vegna skeljabrota frá Hörpudiskskeljum.

Tilvalið er að koma á Rauðasand á háfjöru og rölta um sandinn og týna sér í víðáttunni og njóta útsýnisins. Rauðisandur býður upp á frábært útsýni að Snæfellsnesi og þar fær jökullinn að njóta sýn í góðu veðri.

Við mælum einnig með því að stoppa á kaffihúsinu!

Hólmavík

Hólmavík er stærsti þéttbýlisstaðurinn á Ströndum. Þorpið stendur við Steingrímsfjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Strandabyggð. Líkt og algengt er með íslensk þorp og bæi tók þéttbýli að myndast þar seint á 19. öld. Á Hólmavík hefur verið stunduð verslun frá árinu 1895 en elsta byggingin sem þar stendur er verslunarhús sem kaupmaðurinn Richard Peter Riis reisti árið 1897. Þar er nú rekið hið rómaða veitingahús Café Riis.
Aðal atvinnuvegur Hólmvíkinga hefur í gegnum tíðina verið sjávarútvegur en landbúnaður hefur einnig verið blómlegur allt í kringum byggðarlagið og á undanförnum árum hefur ferðaþjónusta farið vaxandi.
Gestir á Hólmavík ættu ekki að láta hjá líða að skoða Galdrasafnið. Strandir eru órjúfanlega tengdar galdrafári 17. aldar og eru þeirri sögu gerð frábær skil á Galdrasafninu sem og í Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði í um 20 mínútna akstursfæri frá Hólmavík. Þar er einnig að finna 25 m útisundlaug, Gvendarlaug hins góða, ásamt náttúrulegum heitum potti.
Annað safn, rétt við bæjardyr Hólmvíkinga, er til húsa í gamla félagsheimilinu Sævangi og ber hið virðulega nafn Sauðfjársetur á Ströndum. Þar er að finna margháttaðan fróðleik um sauðkindina og sauðfjárbúskap fyrr og nú. Safnið stendur einnig fyrir ýmis konar viðburðum og uppákomum hvert sumar en þar er sennilega Íslandsmeistaramótið í hrútaþukli þekktast. Á Orrustutanga, rétt við safnið, er æðarvarp sem gaman er að skoða.
Fyrir þá sem eru með mótorhjólið í skottinu þá er mótorcross braut rétt utan við Hólmavík og í Skeljavík er golfvöllur. Handan fjarðarins, á Selströnd, er gaman að skoða fuglalífið sem er afar fjölbreytt.
Mjög skemmtileg gönguleið er í Kálfanesborgum rétt ofan við byggðina og raunar má finna urmul góðra gönguleiða allt í kringum Hólmavík. Svæðið er líka ríkt af allskyns þjóðsögum og sögnum og óneitanlega öðlast bæði gönguferðirnar og bíltúrarnir meira gildi ef fólk hefur tök á að kynna sér einhverjar þessara sagna áður en lagt er í hann. Þegar klettadrangar breytast í tröllskessur, stórgrýti verður að álfaborgum og þúfnabörð verða að álagablettum er hvunndagslegur göngutúr fljótur að breytast í sannkallaða ævintýraför.
Á Hólmavík er virkilega góð útisundlaug með heitum pottum þar sem gott er að skola af sér ferðarykið og láta harðsperrurnar líða úr gönguþreyttum vöðvum. Sveitarfélagið Srandabyggð rekur öfluga upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn í samstarfi við Strandagaldur í húsnæði Galdrasafnsins rétt við höfnina á Hólmavík.

Patreksfjörður

Patreksfjörður stendur við samnefndan fjörð og er stærsti þéttbýlisstaðurinn á sunnanverðum Vestfjörðum. Þorpið teygir sig á milli Vatneyrar og Geirseyrar og gekk áður fyrr jafnan undir Vatneyrar nafninu. Patreksfjörður er nú hluti af hinu sameinaða sveitarfélagi Vesturbyggð sem teygir sig yfir mestalla Vestur-Barðastrandarsýslu.
Verslun hefur verið stunduð á þessu svæði frá fornu fari og þangað sóttu kaupmenn frá ýmsum löndum. Á einokunartímanum var Vatneyri viðurkenndur verslunarstaður og fiskihöfn. Veturinn 1615 bjuggu baskneskir skipbrotsmenn um sig í verslunarhúsunum, en þeir voru þá á flótta undan Ara sýslumanni í Ögri og flokki hans,) sem eltu uppi og aflífuðu marga skipbrotsmannanna í hinum alræmdu Spánverjavígum.
Þéttbýli tók að myndast á svæðinu á seinni hluta 19. aldar og árið 1900 voru íbúarnir orðnir um 350 talsins. Innan Vatneyrar var gott hafskipalagi og þangað sóttu erlend skip mjög. Heimildir eru um að 100 seglskip hafi verið á legunni í einu og síðar varð Patreksfjörður fjölsótt höfn fyrir erlenda togara sem komu til viðgerða eða til að leita skjóls undan veðrum.
Patreksfirðingar voru miklir frumkvöðlar í útgerð og fiskveiðum. Þeir hófu þilskipaútgerð fyrstir Vestfirðinga og voru jafnframt í forystu þegar útgerð togara hófst.
Enn í dag er sjávarútvegur mikilvægasta atvinnugreinin á Patreksfirði en þar er einnig að finna fjölbreytta þjónustu. Menningin á sér líka djúpar rætur á svæðinu og eru skáldið Jón úr Vör og listmálarinn Kristján Davíðsson líklega kunnustu listamenn Patreksfjarðar. Þá hefur heimildamyndahátíðin Skjaldborg fest sig í sessi á undanförnum árum sem ein eftirtektarverðasta kvikmyndahátíð landsins.
Ferðafólk getur slakað á í nýrri og stórglæsilegri sundlaug Patreksfirðinga eða tekið hring á golfvellinum. Margir af fegurstu og vinsælustu áningarstöðum ferðamanna á Vestfjörðum eru í þægilegu ökufæri frá Patreksfirði svo sem Vatnsfjörður, Rauðasandur og Látrabjarg. Þess má geta að National Geograpic valdi nýlega Látrabjarg í hóp þeirra 10 staða sem bjóða upp á fegurstu sjávarsýn (e. ocean view) í heiminum.

Vestfirðir

Þorp og bæir

Á Vestfjörðum eru margir áhugaverðir bæir og þorp með fjölbreyttir menningu og mannlífi. Hver staður hefur sín einstöku sérkenni en allir eiga þeir það sameiginlegt að taka vel á móti gestum sínum. Hér er hægt að fá ítarlegri upplýsingar um alla þéttbýlisstaði á Vestfjörðum.

Skoðaðu bæina okkar

Map Bolungarvík Hnífsdalur Suðureyri Flateyri Ísafjörður Súðavík Þingeyri Bíldudalur Tálknafjörður Patreksfjörður Hólmavík Drangsnes Reykhólar Borðeyri Djúpavík Norðurfjörður Norðurfjörður
  • Upplýsingamiðstöð Vestfjarða
  • Árnagata 2-4
  • 400 Ísafjörður
  • +354-450-8060
  • travel(at)westfjords.is