Í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því steinsteypt sundlaug var byggð í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og 90 ár frá því skólahald hófst þar verða afhjúpuð tvö söguskilti í Reykjanesi laugardaginn 5. júlí kl. 15. Boðið verður upp á kaffiveitingar. Hjartanlega velkomin!
Að verkefninu standa afkomendur Aðalsteins Eiríkssonar og Bjarnveigar Ingimundardóttur, fyrstu skólastjórahjóna í Reykjanesi (1934-1944), og Páls Aðalsteinssonar og Guðrúnar Hafsteinsdóttur skólastjórahjóna (1952-1966), ásamt Sögumiðlun og styrkveitendunum Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Háafelli, HS Orku og Ísafjarðarbæ.
Sundkennsla var í Reykjanesi allt frá fyrri hluta 19. aldar, fyrst í torflaug, en steinsteypta sundlaugin var byggð 1925 og stækkuð tvisvar á næstu árum. Reykjanesskóli var héraðsmiðstöð við Ísafjarðardjúp í meira en hálfa öld, frá því skólinn var stofnaður árið 1934 og þar til skólahald lagðist af árið 1991.
Söguskiltin um sundlaugina og skólann í Reykjanesi verða staðsett við flötina neðan við skólann. Á skiltunum eru QR kóðar sem vísa á upplýsingar og myndir á vef Reykjaness: https://reykjaneswestfjords.is/saga/
Umsjón með verkefninu hafa:
Björk Pálsdóttir: bjork.palsdottir@gmail.com, s. 6997468
Ólafur J. Engilbertsson: olafur@sogumidlun.is, s. 6987533