Sunnudaginn 10. ágúst kl. 13.00 mun rithöfundurinn og skáldið Hallgrímur Helgason stíga á stokk í Steinshúsi við Ísafjarðardjúp og lesa upp úr verkum sínum og spjalla við gesti. Kemur hann þangað glóðvolgur af einleikjahátíðinni Act Alone á Suðureyri þar sem hann flytur Sextíu kílóa einleik sinn úr Borgarleikhúsinu.
Dagskráin í Steinshúsi verður samsett úr völdum köflum úr Sextíu kílóa bókunum og kvæðum úr væntanlegu kvæðasafni skáldsins sem inniheldur rímuð og stuðluð ljóð ort á síðastliðnum tveimur áratugum. Mörg þeirra hefur Hallgrímur birt í tímaritum og á samfélagsmiðlum en koma nú fyrst út á bók sem Forlagið gefur út í október næstkomandi.
Hallgrímur Helgason er höfundur tólf skáldsagna, fjögurra ljóðabóka og einnar barnabókar. Þá liggja eftir hann þýðingar á tveimur verkum Shakespeares og einu eftir Moliére. Þrjár skáldsagna hans hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og þrjár hafa hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin. Tvær sögur hafa verið kvikmyndaðar og fjórar færðar á svið heima og erlendis. Árið 2021 var hann sæmdur frönsku orðunni Officier de l‘Ordre des arts et des lettres.