Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

NæturFossavatnið

27. mars kl. 22:00-03:00

Keppnin hefst kl. 22:00 í báðum vegalengdum. Gengið verður inn í kvöldið og nóttina. Slökkt verður á lýsingunni á skíðasvæðinu, en þátttakendur ganga með sín eigin ennisljós.

Keppnisfyrirkomulagið er þannig að keppt verður í tveggja manna liðum (óháð aldri og kyni) og ganga liðsfélagarnir saman alla leið. Ekki má muna meira en 15 sekúndum á þeim í endamarkinu og er það tíminn á seinni manninum sem gildir. Hægt er að velja á milli þess að ganga 70 km eða 35 km (báðir aðilar ganga alla vegalengdina, 70 km gangan er t.d. ekki þannig að hvor um sig gangi 35 km).

Keppt er með frjálsri aðferð, þ.e.a.s. fólk ræður hvort það gengur hefðbundið eða skautar. Einnig má skipta um aðferð ef fólk vill, en vinsamlegast hafið bara eitt par af skíðum (og öðrum búnaði) fyrir hvora aðferð. Hægt er að láta ferja aukabúnaðinn upp í farangurshólfið við brautina (sjá hér að neðan).

Þátttakendur sjá sjálfir um sína drykki og annað nesti. Farangurinn verður fluttur á sleða frá startinu og í farangurshólf við brautina í 7,25 km hringnum. Þar getur fólk svo stoppað til að næra sig (eða skipta á milli skauta- og hefðbundins búnaðar) þegar þurfa þykir. Að keppni lokinni verður farnagurinn svo aftur ferjaður niður á marksvæðið, en þó gæti mögulega þurft að bíða svolítið eftir þeim flutningi.

Staðsetning

Seljalandsdalur