Þann 23. október kemur út ný nótnabók, Lögin hans Villa Valla, með 32 lögum eftir rakarann tónelska. Lögin eru flest birt með laglínu, hljómum og eftir atvikum texta, en önnur eru í útsetningum fyrir fleiri hljóðfæri. Þá eru nokkur lög prentuð í kórútsetningum. Mörg laganna eru áður óútgefin. Bókina prýða myndir frá löngum ferli Villa Valla og æviágrip.
Gylfi Ólafsson og Rúnar Vilbergsson hafa tekið bókina saman.
Í tilefni af útgáfu bókarinnar verður haldið útgáfuhóf í Edinborgarhúsinu fimmtudaginn 23. október kl. 20:00. Þar verður bókin kynnt, en auk þess verða nokkur lög úr smiðju Villa flutt af Karlakórnum Erni, Ylfu Mist Helgadóttur Rúnarsdóttur og Arnheiði Steinþórsdóttur. Undirleik annast Gylfi Ólafsson.
Viðburðurinn er hluti af Veturnóttum.
Ókeypis verður inn á útgáfuhófið, og bókin til sölu. Einnig verður hægt að kaupa Lög frá Ísafirði, nótnabók sem kom út um svipað leyti í fyrra.
Vilberg Valdal Vilbergsson, Villi Valli, fæddist á Flateyri árið 1930 og lést árið 2024. Hann var rakari áratugum saman á Ísafirði, en var þó á kafi í tónlist alla tíð. Hann lék á harmoniku, saxófón og píanó í djass- og danshljómsveitum og Harmonikufélagi Vestfjarða auk þess að stjórna Lúðrasveit Ísafjarðar um árabil.
Í seinni tíð fór hann einnig að semja tónlist og komu tvær plötur út með lögum hans; Villi Valli kom út árið 2000 og Í tímans rás árið 2008.