Baskneska hljómsveitin Kalekantoi mun verða með tónleika á nokkrum stöðum á Vestfjörðum á næstu dögum.
Fyrstu tónleikarnir verða í Baskasetrinu á Djúpavík 12. ágúst. Þann 14. ágúst kl 15:30 verða þau í Ögri, þann 16 kl. 17:00 í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og þann 17. ágúst í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal í Dýrafirði.
Það er fjölskylda sem myndar hljómsveitina, faðir og þrjár dætur, og þau spila hefðbundna baskneska tónlist á fjölbreytt, hefðbundin basknesk hljóðfæri eins og Trikiti, Dultzaina, Alboka og fleiri.
Á tónleikunum mun Baskinn Imanol Mendi, sem hefur starfað í Djúpavík, kynna hin mismunandi hljóðfæri sem leikið verður á og kynna og segja frá baskneskri tónlist og einnig bakgrunni sumra laganna.