Suðureyri Lifandi sjávarþorp

Suðureyri stendur við sunnanverðan Súgandafjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Suðureyri varð löggiltur verslunarstaður árið 1899 en fljótlega upp úr því tók að myndast vísir að byggð á eyrinni.
Sjávarútvegur hefur alla tíð verið mikilvægasta atvinnugreinin á svæðinu og því ekki að ósekju að sjóklæðagerðin 66°N á upphaf sitt að rekja til Suðureyrar. Ferðaþjónusta hefur einnig vaxið mjög á undanförnum árum og er Suðureyri orðin þekkt víða um heim sem hið dæmigerða íslenska sjávarþorp enda hefur umfjöllun um bæinn ratað inn í flestar helstu ferðahandbækur sem gefnar eru út. Í þjónustu við ferðafólk er lögð mikil áhersla á hina sögulegu tengingu við hafið og fiskveiðar, í sátt við náttúruna og umhverfið, en tæpast er hægt að finna vistvænna þorp en Suðureyri. Veiðar fara fram með vistvænum veiðarfærum, línu og handfærum, aflinn er fullunninn í þorpinu og þar er einnig fyrirtæki sem sérhæfir sig í að skapa verðmæti úr aukaafurðum fisksins þannig að lítið sem ekkert fer til spillis. Á Suðureyri er jarðvarmi, nokkuð sem önnur byggðarlög á norðanverðum Vestfjörðum búa ekki við og í botni fjarðarins er vatnsaflsvirkjun sem framleiðir rafmagn. Súgfirðingar leggja því höfuð áherslu á notkun endurnýjanlegrar orku og að halda mengun og úrgangi í algeru lágmarki.
Það er óhætt að segja að Sjávarþorpið Suðureyri standi fyllilega undir nafni. Staðurinn hefur verið leiðandi í þeirri miklu þróun sem orðið hefur í sjóstangveiði fyrir ferðafólk á undanförnum árum. Árlega kemur þangað mikill fjöldi gesta sem leigir sér bát og búnað til veiða. Mest eru það erlendir veiðimenn sem stoppa í viku í senn en séu bátar á lausu er ekkert því til fyrirstöðu að fólk geti skroppið á sjó í einn dag eða dagspart og sótt sér spriklandi ferska soðningu.
Gestum á Suðureyri stendur einnig til boða að skoða fiskvinnsluna á staðnum, kíkja í beitingarskúra og jafnvel að slást í för með sjómönnum á miðin. Enginn ætti heldur að láta hjá líða að stoppa við lónið í útjaðri þorpsins, skoða þorskana sem þar búa og gefa þeim að éta, en þeir eru afar gæfir og eiga það til að þiggja matinn beint úr lófa fólks. Hægt er að fá æti fyrir þorskana í verslun staðarins.
Suðureyri stendur á elsta hluta Íslands en bergið á svæðinu er um 15 milljón ára gamalt. Landslagið er fallegt og göngufólk getur valið um fjölda fallegra leiða. Þar má nefna gamlar samgönguleiðir svo sem leiðina um Klofningsheiði yfir til Flateyrar og leiðina upp Selárdal, handan fjarðarins, yfir Grábrókarheiði og til Bolungarvíkur. Úr botni fjarðarins er líka gaman að ganga upp gamla Botnsheiðarveginn, sem nú hefur verið aflagður sem bílvegur. Styttri og léttari leiðir eru líka í boði. Það er t.d. fallegt, auðvelt og skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna að fara fyrir Brimnes. Þangað er lítið mál að ganga frá Suðureyri en einnig stendur fólki til boða að leigja sér reiðhjól eða rafknúna vespu til að fara um á og rannsaka svæðið.
Ekki má heldur gleyma því að á Suðureyri er besta sundlaugin á norðanverðum Vestfjörðum, útilaug með heitum pottum og gufubaði. Laugin stendur á afar fallegum stað undir fjallshlíðinni og nýtur mikillar hylli ekki síst á meðal fjölskyldufólks.

Com_299_1___Selected.jpg
Suðureyri
GPS punktar N66° 7' 46.449" W23° 31' 36.408"
Póstnúmer

430

Suðureyri - ferðaupplýsingar

Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands

Aðrir

Comfy Guesthouse
Gistiheimili
  • Túngata 2
  • 430 Suðureyri
  • 778-1500
Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)
Sjá lista Sjá kort

Vestfirðir

Þorp og bæir

Á Vestfjörðum eru margir áhugaverðir bæir og þorp með fjölbreyttir menningu og mannlífi. Hver staður hefur sín einstöku sérkenni en allir eiga þeir það sameiginlegt að taka vel á móti gestum sínum. Hér er hægt að fá ítarlegri upplýsingar um alla þéttbýlisstaði á Vestfjörðum.

Skoðaðu bæina okkar

Map Bolungarvík Hnífsdalur Suðureyri Flateyri Ísafjörður Súðavík Þingeyri Bíldudalur Tálknafjörður Patreksfjörður Hólmavík Drangsnes Reykhólar Borðeyri Djúpavík Norðurfjörður Norðurfjörður
  • Upplýsingamiðstöð Vestfjarða
  • Árnagata 2-4
  • 400 Ísafjörður
  • +354-450-8060
  • travel(at)westfjords.is