Drangsnes Drangsnes

Drangsnes stendur í mynni Steingrímsfjarðar og er eini þéttbýlisstaðurinn í Kaldrananeshreppi. Drangsnes er ungt þorp en þar fór þéttbýli ekki að myndast fyrr en um 1925. Fiskveiðar eru aðal atvinnuvegur íbúanna og eiga grásleppuveiðar þar djúpar rætur. Raunar er hafnaraðstaðan í þorpinu sjálfu ekki ýkja góð en lítið eitt innan við þorpið hefur verið gerð önnur höfn í svokallaðri Kokkálsvík.
Drangsnes dregur nafn sitt af miklum klettadrangi sem stendur í þorpinu. Sannsöglir menn segja að þar sé raunar komið eitt tröllanna sem á sínum tíma reyndu að grafa Vestfirðina lausa frá Íslandi en dagaði uppi og urðu að steinum áður en þeim tókst að ljúka verkinu. Eyjan Grímsey sem er þar skammt undan landi er einnig afrakstur þessa umbótaverkefnis tröllanna. Þar er auðugt fuglalíf með mikilli lundabyggð sem nýtur vinsælda hjá ferðafólki. Farnar eru áætlunarsiglingar út í eyjuna frá Drangsnesi og tekur siglingin einungis um 10 mínútur.
Í grennd við Drangsnes eru margar fallegar gönguleiðir. Ganga upp á Bæjarfell hentar t.d. allri fjölskyldunni og af fjallinu er fallegt útsýni út á Steingrímsfjörð, Húnaflóa og til Grímseyjar. Frá Drangsnesi er líka stutt keyrsla að Klúku í Bjarnarfirði þar sem hægt er að skoða Kotbýli kuklarans sem er hluti af Galdrasýningu á Ströndum. Þar er einnig Gvendarlaug hins góða, 25 m útisundlaug með náttúrulegum heitum potti.
Ef ekið er áfram norður tekur við einstök fegurð Árneshrepps. Í vestur frá Drangsnesi er hins vegar Selströndin sem er auðug af fuglalífi. Í Strákatanga í Hveravík er unnið að áhugaverðum fornleifauppgreftri en á tanganum munu baskneskir hvalfangarar hafa starfrækt öfluga hvalveiðistöð á 17. öld.
Fyrir fáum árum síðan gerðist það að önnur kaldavatnsleiðsla Drangsnesinga fraus og eyðilagðist. Því var ekki um annað að ræða en að fá jarðbor á svæðið og bora eftir meira köldu vatni. Svo "ólánlega" vildi þó til að borinn kom niður á jarðhita og skömmu síðar var fannst öflug heitavatnsæð. Guðmundur Halldórsson sem rak bleikjueldi að Ásmundarnesi í Bjarnarfirði brást skjótt við og kom keyrandi á traktornum með fiskeldisker sem hann gaf börnunum í þorpinu. Kerjunum var komið fyrir í fjörukambinum rétt neðan við Aðalbrautina og þar var opnuð baðaðstaða sem er öllum opin án endurgjalds. Kerin voru síðar endurnýjuð og nú hefur verið byggt blygðunarhús með sturtum og salerni handan götunnar. Eftir sem áður er aðgangur að pottunum ókeypis. Einnig er hægt að taka sundsprett í nýrri og glæsilegri útisundlaug á Drangsnesi.

Com_294_1___Selected.jpg
Drangsnes
GPS punktar N65° 41' 19.081" W21° 26' 34.592"
Póstnúmer

520

Vefsíða www.drangsnes.is

Drangsnes - ferðaupplýsingar

Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands

Aðrir

Tjaldsvæðið á Drangsnesi
Tjaldsvæði
 • Aðalbraut
 • 520 Drangsnes
 • 844-8701
Gistiþjónusta Sunnu
Heimagisting
 • Holtagata 10
 • 520 Drangsnes
 • 451-3230, 846-1640
Náttúra
Grímsey

Grímsey á Steingrímsfirði er sannkölluð náttúruperla. Einungis 10 mínútna sigling er til Grímseyjar og boðið er upp á áætlunarferðir frá Drangsnesi. Í Grímsey er mikil náttúrufegurð og fjölskrúðugt fuglalíf. Við reiknum með því að það taki um 2 klukkustundir að ganga um eyna. Fleiri upplýsingar er að finna á kaffihúsinu Malarhorni

Fyrir börnin
Pottarnir á Drangsnesi

Ófáir Strandamenn hafa dregið sig saman í pottunum á Drangsnesi,enda hefur þar löngum verið samkomustaður ungs fólks á öllum aldri. Pottarnir þrír eru fyrir neðan veg nálægt sjónum og eru þeir mjög vel sýnilegir frá þorpinu og veginum. Vatnið er salt í pottunum. Vinsældir pottanna virðast síst hafa minnkað síðustu misseri þó fyrirtaks sundlaug hafi verið reist í plássinu ekki fyrir svo löngu síðan.

Ókeypis aðgangur

Náttúra
Kletturinn Kerling

Kletturinn kerling er mjög skemmtilegt viðfangsefni. Sagan segir að kerling sú er stendur þarna sé í raun tröllkerling sem átti stóran þátt í því að landræman sem tengir Vestfirði við Ísland er svo stutt á milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar. Kerling þessi, ásamt tveimur öðrum tröllum ákváðu eitt sinn í sameiningu að gera Vestfirði að eyju. Hófust þau handa við gröftinn, tvö þeirra að vestanverðu en eitt að austanverðu. Gröfturinn gekk vel og landræman styttist í hverri skóflustungunni. Þegar líða tók að dögun og ekki var búið að moka alla landræmuna þá ákváðu tröllin að forða sér áður en sólin kæmi. Litu þau fyrst yfir firðina í innanverðum Breiðafirði að vestanverðu, sem voru orðnir fullir af eyjum en horfðu síðan yfir Húnaflóann að austanverðu og sáu að engin einasta eyja hefði myndast. Tröllunum sinnaðist við þetta og hlupu því hvort í sína áttina. Kerling á Drangsnesi er sú er gróf að austanverðu en hin tvö tröllin má sjá steingerð á harðahlaupum út eftir Kollafirði. Kerlingu á Drangsnesi líkaði ekki að engin eyja hafði myndast við gröft sinn svo hún lagði allan kraft í það rétt í dögun að mynda eina slíka fyrir utan Drangsnes. Það ku vera eyjan Grímsey í dag.

Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)
Sjá lista Sjá kort

Vestfirðir

Þorp og bæir

Á Vestfjörðum eru margir áhugaverðir bæir og þorp með fjölbreyttir menningu og mannlífi. Hver staður hefur sín einstöku sérkenni en allir eiga þeir það sameiginlegt að taka vel á móti gestum sínum. Hér er hægt að fá ítarlegri upplýsingar um alla þéttbýlisstaði á Vestfjörðum.

Skoðaðu bæina okkar

Map Bolungarvík Hnífsdalur Suðureyri Flateyri Ísafjörður Súðavík Þingeyri Bíldudalur Tálknafjörður Patreksfjörður Hólmavík Drangsnes Reykhólar Borðeyri Djúpavík Norðurfjörður Norðurfjörður
 • Upplýsingamiðstöð Vestfjarða
 • Árnagata 2-4
 • 400 Ísafjörður
 • +354-450-8060
 • travel(at)westfjords.is