Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Fjölskylduvænt

20080721-img_9404.jpg
Fjölskylduvænt

Það er margt hægt að gera á ferð sinni um Vestfirði sem er skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna.

Sund

Á Vestfjörðum má finna margar sundlaugar og ekki er verra að geta skellt sér saman í fallega náttúrulaug. Að fá sér sundsprett eftir langan dag í bílnum eða í skoðunarferðum er frábær leið til að slappa af og hlaða batterýin. 

Strandastuð

Á Vestfjörðum er næstum helmingur strandlengju Íslands og því ljóst að það er enginn skortur á ströndum. Á Vestfjörðum má finna hinar klassísku svörtu sandstrendur en einnig ljósar strendur sem hentar alveg ótrúlega vel í sandkastalagerð. 

Dýralíf

Á Vestfjörðum má finna ýmis villt dýr, fugla, refi og fiska en einnig er í boði að fara á opin býli eins og Skálholt á Barðaströnd þar sem hægt er að sjá svín, beljur, hænur og fleiri dýr. 

Á Suðureyri er meira að segja hægt að klappa þorskum! Við komu til Suðureyrar er hægt að koma við í Fisherman Minimarket búðinni og kaupa fiskafóður. Því næst er farið að pollinum sem er á vinstri hönd þegar að keyrt er inn í þorpið. Við pollinn er lítil bryggja sem hægt er að fara út á til að gefa fiskunum. Sumir þorskarnir borða meira að segja úr lófunum á velunnurum sínum. 

Viðburðir

Það eru margir viðburðir á Vestfjörðum sem henta mjög vel fyrir alla fjölskylduna. Smelltu hér til að kíkja á viðburðadagatalið okkar. 

Raggagarður

Upphaf fjölskyldugarðsins.
Frumkvöðull að þessum garði er formaður og framkvæmdastjóri áhuga-mannafélagsins um garðinn, Vilborg Arnarsdóttir ( Bogga ) í Súðavík.
Hún hafði lengi gengið með þá hugmynd í maganum, að reisa sumarleiksvæði sem ætlað væri til að auka fjölbreytni í afþreyingu fyrir fjölskyldur á norðanverðum Vestfjörðum.

Markmiðið með garðinum er að hlúa að fjölskyldum á svæðinu og efla útiveru og hreyfingu og um leið stuðla að ánægjulegri samveru foreldra og barna. Að halda áfram uppbyggingu Súðavíkur sem ferðamannabæjar og efla afþreyingu fyrir ferðamenn á svæðinu. Bogga kannaði áhuga heimamanna á þessu verkefni og kom í ljós að heimamenn, sumarhúsaeigendur og aðrir aðilar höfðu mikinn áhuga á verkefninu. Í framhaldinu var sótt um lóð fyrir fjölskyldugarðinn til hreppsnefndar Súðavíkur.

Hugsjónin varðandi garðinn og minningin.
Nafnið á garðinum er tilkomið vegna þess að frumkvöðull félagsins fór af stað með þetta verkefni og vinnuframlag sitt til minningar um son sinn Ragnar Frey Vestfjörð sem lést í bílslysi í Súðavík 17 ára gamall, 19. ágúst 2001.
Það er hennar vilji að minningin um drenginn hennar verði til þess að fjölskyldugarður rísi á Vestfjörðum og skapi þannig fleiri tækifæri fyrir foreldra og börn til að eiga ánægjulegar stundir saman. Minningin um ungan dreng sem ekki fékk tækifæri til að lifa og verða fullorðinn maður.
Garðurinn á að vera vettvangur til að eiga ánægjulega stund með börnum okkar og barnabörnum, þar sem fjölskyldan getur glaðst saman. Garðurinn er ætlaður sem góður og gleðilegur vettvangur til að hugleiða út á hvað lífið gengur eða hvað sé okkur dýrmætast í lífinu.

Nánari upplýsingar á www.raggagardur.is

Sundlaugar

Sundlaugar er víða að finna á Vestfjörðum, í byggð, við gamla héraðsskóla eða yfirgefnar einar úti í náttúrunni. Þær eru eins mismunandi og þær eru margar, það er því um að gera að heimsækja sem flestar á ferð sinni um Vestfirði. 

Hjólaleigur

Hjólreiðar eru ódýr, heilnæmur og ekki síst umhverfisvænn ferðamáti. Víða á Vestfjörðum er hægt að leigja hjól til lengri eða skemmri tíma.

Suðureyri

Suðureyri stendur við sunnanverðan Súgandafjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Suðureyri varð löggiltur verslunarstaður árið 1899 en fljótlega upp úr því tók að myndast vísir að byggð á eyrinni.
Sjávarútvegur hefur alla tíð verið mikilvægasta atvinnugreinin á svæðinu og því ekki að ósekju að sjóklæðagerðin 66°N á upphaf sitt að rekja til Suðureyrar. Ferðaþjónusta hefur einnig vaxið mjög á undanförnum árum og er Suðureyri orðin þekkt víða um heim sem hið dæmigerða íslenska sjávarþorp enda hefur umfjöllun um bæinn ratað inn í flestar helstu ferðahandbækur sem gefnar eru út. Í þjónustu við ferðafólk er lögð mikil áhersla á hina sögulegu tengingu við hafið og fiskveiðar, í sátt við náttúruna og umhverfið, en tæpast er hægt að finna vistvænna þorp en Suðureyri. Veiðar fara fram með vistvænum veiðarfærum, línu og handfærum, aflinn er fullunninn í þorpinu og þar er einnig fyrirtæki sem sérhæfir sig í að skapa verðmæti úr aukaafurðum fisksins þannig að lítið sem ekkert fer til spillis. Á Suðureyri er jarðvarmi, nokkuð sem önnur byggðarlög á norðanverðum Vestfjörðum búa ekki við og í botni fjarðarins er vatnsaflsvirkjun sem framleiðir rafmagn. Súgfirðingar leggja því höfuð áherslu á notkun endurnýjanlegrar orku og að halda mengun og úrgangi í algeru lágmarki.
Það er óhætt að segja að Sjávarþorpið Suðureyri standi fyllilega undir nafni. Staðurinn hefur verið leiðandi í þeirri miklu þróun sem orðið hefur í sjóstangveiði fyrir ferðafólk á undanförnum árum. Árlega kemur þangað mikill fjöldi gesta sem leigir sér bát og búnað til veiða. Mest eru það erlendir veiðimenn sem stoppa í viku í senn en séu bátar á lausu er ekkert því til fyrirstöðu að fólk geti skroppið á sjó í einn dag eða dagspart og sótt sér spriklandi ferska soðningu.
Gestum á Suðureyri stendur einnig til boða að skoða fiskvinnsluna á staðnum, kíkja í beitingarskúra og jafnvel að slást í för með sjómönnum á miðin. Enginn ætti heldur að láta hjá líða að stoppa við lónið í útjaðri þorpsins, skoða þorskana sem þar búa og gefa þeim að éta, en þeir eru afar gæfir og eiga það til að þiggja matinn beint úr lófa fólks. Hægt er að fá æti fyrir þorskana í verslun staðarins.
Suðureyri stendur á elsta hluta Íslands en bergið á svæðinu er um 15 milljón ára gamalt. Landslagið er fallegt og göngufólk getur valið um fjölda fallegra leiða. Þar má nefna gamlar samgönguleiðir svo sem leiðina um Klofningsheiði yfir til Flateyrar og leiðina upp Selárdal, handan fjarðarins, yfir Grábrókarheiði og til Bolungarvíkur. Úr botni fjarðarins er líka gaman að ganga upp gamla Botnsheiðarveginn, sem nú hefur verið aflagður sem bílvegur. Styttri og léttari leiðir eru líka í boði. Það er t.d. fallegt, auðvelt og skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna að fara fyrir Brimnes. Þangað er lítið mál að ganga frá Suðureyri en einnig stendur fólki til boða að leigja sér reiðhjól eða rafknúna vespu til að fara um á og rannsaka svæðið.
Ekki má heldur gleyma því að á Suðureyri er besta sundlaugin á norðanverðum Vestfjörðum, útilaug með heitum pottum og gufubaði. Laugin stendur á afar fallegum stað undir fjallshlíðinni og nýtur mikillar hylli ekki síst á meðal fjölskyldufólks.

Vestfirðir

Þorp og bæir

Á Vestfjörðum eru margir áhugaverðir bæir og þorp með fjölbreyttir menningu og mannlífi. Hver staður hefur sín einstöku sérkenni en allir eiga þeir það sameiginlegt að taka vel á móti gestum sínum. Hér er hægt að fá ítarlegri upplýsingar um alla þéttbýlisstaði á Vestfjörðum.

Skoðaðu bæina okkar

Map Bolungarvík Hnífsdalur Suðureyri Flateyri Ísafjörður Súðavík Þingeyri Bíldudalur Tálknafjörður Patreksfjörður Hólmavík Drangsnes Reykhólar Borðeyri Djúpavík Norðurfjörður Norðurfjörður
  • Upplýsingamiðstöð Vestfjarða
  • Árnagata 2-4
  • 400 Ísafjörður
  • +354-450-8060
  • travel(at)westfjords.is