Fara í efni

Viltu sigla um höfin blá?

Undanfarið hefur borið á auknum áhuga Íslendinga á siglingum og fannst okkur þess vegna góð hugmynd að starta siglingaskóla á Ísafirði. Við eigum náið samstarf við Sæfara sem hefur boðið uppá siglinganámskeið fyrir krakka og vorum við sammála um að það vantaði vettvang fyrir eldri nemendur til að spreyta sig. Teista er 30 feta seglskúta, þekktur siglari á Íslandi sem hefur farið víða. Okkur þótti hún fullkomin til að kenna fólki þessi helstu handtök sem nauðsynlegt er að hafa vald á til að geta siglt skútu. Síðan Teista var sjósett hefur hún verið nánast fullbókuð í byrjendanámskeið í siglingum og er nú farið að bera á því að þeir nemendur sækjast eftir framhaldsnámskeiðum og að taka skemmtibátaprófið hjá okkur. Teista er hin fullkomna viðbót við það sem Aurora Arktika stendur fyrir og býður uppá nú þegar og þjálfar í rauninni framtíðar siglara og stuðlar að uppbyggingu siglingasamfélagsins á Íslandi. Þá hefur það verið nokkuð augljóst að Ísafjörður er sá staður á Íslandi sem er best til þess fallinn að vera miðstöð siglinga, hér er að finna krefjandi veður, allskonar vinda, undursamlega náttúrufegurð og skemmtilega skútumenningu á höfninni. Lengi hefur Ísafjörður verið sá staður sem margar leiðangursskútur staldra við á, á leið sinni yfir hafið og bæta þær enn frekar við þessa skemmtilegu og líflegu menningu sem einkennir höfnina á Ísafirði. Það eru siglinganámskeið í hverri viku fram á haust sem og 3 tíma skyndinámskeið fyrir þá sem vilja prófa örstutt áður en þeir skrá sig á 3 daga siglinganámskeið, segir Inga Fanney Sigurðardóttir frá Aurora-Arktika.

Allar frekari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.aurora-arktika.com